Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) mun ekki verða stofnaðili að Hagvaxtarsjóði Íslands sem fyrirsvarsmenn Framtakssjóðs Íslands hafa unnið að því að koma á laggirnar að undanförnu. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu .

Sami miðill greindi frá því í janúar að Gildi lífeyrissjóður hefði hafnað þátttöku í sjóðnum, og er því ljóst að tveir af þremur stærstu lífeyrissjóðum landsins munu ekki taka þátt í verkefninu.

Upphaflega var stefnt að því að fjárfestingargeta sjóðsins yrði 30 milljarðar króna. Þegar Gildi tilkynnti hins vegar að sjóðurinn myndi ekki taka þátt var fjárhæðin lækkuð í 20 milljarða.

Í Morgunblaðinu kemur fram að mikil áhersla hafi verið lögð á að LSR yrði meðal stofnaðila og framlag hans yrði umtalsvert. Nú þegar ljóst er að sjóðurinn mun ekki taka þátt í fjármögnuninni má telja líklegt að fjárfestingargeta sjóðsins verði því stórum lægri en lagt var upp með í upphafi.