*

sunnudagur, 21. júlí 2019
Innlent 13. febrúar 2015 08:54

LSR tekur ekki þátt í Hagvaxtarsjóði

Tveir af þremur stærstu lífeyrissjóðum landsins vilja ekki taka þátt í fjármögnun Hagvaxtarsjóðs.

Ritstjórn
Þorkell Sigurlaugsson, stjórnarformaður Framtakssjóðs Íslands.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) mun ekki verða stofnaðili að Hagvaxtarsjóði Íslands sem fyrirsvarsmenn Framtakssjóðs Íslands hafa unnið að því að koma á laggirnar að undanförnu. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu.

Sami miðill greindi frá því í janúar að Gildi lífeyrissjóður hefði hafnað þátttöku í sjóðnum, og er því ljóst að tveir af þremur stærstu lífeyrissjóðum landsins munu ekki taka þátt í verkefninu.

Upphaflega var stefnt að því að fjárfestingargeta sjóðsins yrði 30 milljarðar króna. Þegar Gildi tilkynnti hins vegar að sjóðurinn myndi ekki taka þátt var fjárhæðin lækkuð í 20 milljarða.

Í Morgunblaðinu kemur fram að mikil áhersla hafi verið lögð á að LSR yrði meðal stofnaðila og framlag hans yrði umtalsvert. Nú þegar ljóst er að sjóðurinn mun ekki taka þátt í fjármögnuninni má telja líklegt að fjárfestingargeta sjóðsins verði því stórum lægri en lagt var upp með í upphafi.