Viðskiptablaðið fjallaði í vikunni um þátttöku lífeyrissjóða í 19,5 milljarða hlutafjárútboði líftæknifyrirtækisins Alvotech sem lauk á mánudaginn. Meðal sjóða sem tóku þátt var Lífeyrissjóður Vestmannaeyja (LSV) en hann fjárfesti fyrir 825 milljónir í útboðinu.

LSV var fyrstur íslenskra lífeyrissjóða til að fjárfesta í Alvotech í eigin nafni. Hann tók þátt í lokuðu hlutafjárútboði líftæknifyrirtækisins í mars 2021. Sjóðurinn keypti einnig í Alvotech fyrir um hálfan milljarð króna í frumútboði félagsins fyrir skráningu á hlutabréfamarkað í fyrra.

Þá fjárfesti hann í víkjandi skuldabréfum Alvotech, með breytirétti í almenn hlutabréf, fyrir 600 milljónir í desember síðastliðnum, samkvæmt Innherja.

Með þátttöku í útboðinu um síðustu helgi fór heildarfjárfesting LSV í Alvotech yfir 2 milljarða króna. Til samanburðar námu eignir LSV 86 milljörðum í árslok 2021 samkvæmt síðasta ársreikning. Ætla má því að verðbréf Alvotech vega yfir 2% af eignasafni LSV.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun um Alvotech í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.