„Þó svo að efnahagsástandið sé eins og það er og eftirspurn eftir utanlandsferðum kannski minni en oft áður, þá er það reynslan að eftirspurn eftir vetrarferðum minnkar lítið,“ segir Helgi Eysteinsson, framkvæmdastjóri nýstofnuðu ferðaskrifstofunnar VITA. Eins og sagt var frá fyrr í dag er VITA í eigu Iceland Travel, sem aftur er í eigu Icelandair.

VITA mun bjóða upp á skíðaferðir til Ítalíu og sólarferðir til Kanaríeyja í vetur. Til stendur að selja í 5.000 sæti í ferðum vetrarins.

„Kaupendur Kanarí-ferða eru að meðaltali eldri en kaupendur margra annarra ferða og því tel ég að eftirspurn eftir þeim ferðum minnki ekki jafn mikið og eftir öðrum ferðum. Sveiflur í kaupmætti eldra fólks vegna gengisfellingar og annars eru minni en í kaupmætti yngra fólks,“ segir Helgi. „Hvað skíðaferðirnar til Ítalíu varðar þá eru það ferðir sem eru í dýrari kantinum og kaupendur þeirra kannski fólk sem hefur meira milli handanna en margir aðrir. Því tel ég að eftirspurn eftir þeim muni ekki hrapa þrátt fyrir efnahagsástandið.“

Hagnast ekki á veikri krónu

Auk þess að vera framkvæmdastjóri VITA er Helgi einnig framkvæmdastjóri Iceland Travel sem selur ferðir til Íslands. Aðspurður hvort Iceland Travel hafi hagnast mikið á lægra gengi krónunnar segir Helgi það ekki vera raunina. „Okkar samningar við þá aðila sem við erum í viðskiptum við eru margir framvirkir. Auk þess er stór hluti okkar kostnaðar í erlendri mynt þannig að hagnaður af því að hafa tekjur í erlendri mynt hverfur að hluta vegna þess.“

Helgi segir að vissulega sé Ísland vænlegri kostur fyrir útlendinga í ferðahugleiðingum þar sem kaupmáttur útlendinga hér á landi hefur aukist vegna gengisfalls krónunnar. „Það hefur hins vegar ekki enn komið fram í meiri sölu hjá okkur. Bæði vegna þess að ferðir til Íslands eru almennt bókaðar með góðum fyrirvara og krónan hafði ekki lækkað mikið þegar aðalsölutíminn úti í heimi á ferðum til Íslands stóð yfir. Einnig verður að taka með í reikninginn að fólk ferðast ekki til Íslands vegna verðlags, við erum enn dýrt land í samanburði við önnur þó að gengið sé ferðamönnum hagstæðara nú.“

Helgi segist þó ekki vera í vafa um það að verði gengi krónunnar áfram á þeim slóðum sem það er nú á muni það hafa góð áhrif á ferðamannastraum til Íslands til lengri tíma litið.