Hugbúnaður fyrirtækisins Lucinity, sem auðveldar starfsfólki banka og fjármálastofnana að koma auga á peningaþvætti, hefur fengið hin virtu World Summit Awards (WSA) fyrir bestu tæknilausnina á sviði viðskipta og verslunar.

Þau 40 verkefni sem fengu verðlaun hjá WSA í ár voru valin úr hópi yfir 800 verkefna frá 100 löndum í eftirtöldum flokkum: stjórnsýslu, heilsu, menntamálum, grænum lausnum, menningu og ferðamálum, skipulag borga, viðskipti og verslun, lýðræðis og valdeflingu almennings.  Vinningsverkefnin 40 eru frá fyrirtækjum sem þykja skara fram úr við að styðja við Heimsmarkmið Sameinuðu Þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Verðlaun WSA verða veitt á heimsþingi WSA Global Congress sem fer fram dagana 22 - 24 febrúar næstkomandi. Þingið er alþjóðlegur vettvangur fyrir þá aðila sem þróa stafræna tækni til að ná heimsmarkmiðum Sameinuðu Þjóðanna.

Guðmundur Kristjánsson, forstjóri og stofnandi Lucinity:

„Það er mikill heiður fyrir okkur hjá Lucinity að vera í hópi þeirra sem fá WSA verðlaunin. Þetta gefur okkur svo sannarlega byr undir báða vængi. Með því að umbylta baráttunni gegn peningaþvætti höfum við góð áhrif á veröldina alla. Peningaþvottur er glæpastarfsemi sem fjármagnar og ýtir undir aðra glæpi og er því mikið samfélagslegt mein. Kerfið okkar er notendavænt og valdeflir starfsfólk banka og annarra fjármálastofnana til að koma betur auga á peningafærslur og hegðun sem bendir til peningaþvættis. Með kerfinu sparast bæði tími og peningar. Lykilmarkmið okkar er að bæta verulega starfsaðstæður þeirra sem starfa við að hindra peningaþvætti og gera þeim kleift að ná betri árangri.

Peter A. Bruck, stjórnarformaður WSA:

„Þverfagleg dómnefnd sérfræðinga frá öllum heimshornum fór yfir tilnefnd fyrirtæki og lausnir þeirra í tveimur umferðum. Vinningslausnirnar sýna glöggt hvað nýsköpun sem byggir á samfélagslegum markmiðum getur verið árangursrík.“