Lúðvík Elíasson, sem var yfirmaður greiningardeildar MP banka, og Friðrik Einarsson, yfirmaður fyrirtækjagreiningar, eru hættur störfum hjá bankanum. Morgunblaðið greinir frá þessu í dag en um nokkurn tíma hefur verið ljóst að Friðrik myndi hætta. Eftir brotthvarf Lúðvíks er enginn starfsmaður hjá greiningardeild bankans. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er um tímabundið ástand að ræða.

Þá er Arnar Arinbjarnarson, sem var yfir viðskiptaþróun, einnig hættur störfum samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Viðskiptablaðið greindi frá því fyrir tveimur vikum síðan að töluverðar breytingar hafa orðið innan bankans eftir að nýir eigendur tóku við. Skipt hefur verið um bankastjóra og nokkra aðila í framkvæmdastjórn bankans. Samhliða ráðningu nýs bankastjóra í júlí tók Brynjólfur J. Baldursson sæti í framkvæmdastjórn bankans. Sigurður Atli Jónsson var þá ráðinn bankastjóri MP banka. Unnið er að ráðningu framkvæmdastjóra eignastýringar og yfirlögfræðings.

Nýr eigendahópur gekk frá kaupum á MP banka í apríl. Á blaðamannafundi kom fram að nýir eigendur hyggðust breyta um nafn bankans, sem heitir þó enn sem komið er MP banki.