Lúðvík Geirsson hefur verið ráðinn hafnarstjóri Hafnarfjarðarhafnar.  Lúðvík sat í hafnarstjórn frá 1986-90 og frá 1994-2010, sem formaður hafnarstjórnar frá 2013-14 og var hafnarstjóri Hafnarfjarðarhafnar samhliða því að sinna embætti bæjarstjóra frá 2002-2004.

Lúðvík var bæjarstjóri í Hafnarfirði frá 2002-2010 og tók á þeim tíma virkan þátt í stefnumótun og uppbyggingu Hafnarfjarðarhafnar í samvinnu við hafnarstjórn og hafnarstjóra. Hann var formaður afmælisnefndar hafnarinnar þegar haldið var upp á 80 ára afmæli hennar árið 1988 með sögusýningu í Hafnarborg og útgáfu á afmælisriti.

Lúðvík býr að þekkingu á rekstri og stöðu Hafnarfjarðarhafnar. Á starfsferli sínum hefur Lúðvík sinnt ýmsum fjölmiðlastörfum og dagskrárgerð, komið að fjölbreyttum verkefnum við almenna stjórnsýslu, verkefnastjórn og ráðgjöf.

Hann var formaður Blaðamannafélags Íslands um ellefu ára skeið og framkvæmda- og rekstarstjóri félagsins um tíma. Hann hefur einnig sinnt kennslu í fjölmiðlun við Háskóla Íslands og Flensborgarskóla, starfað fyrir hin ýmsu ráðuneyti auk þess að sitja á Alþingi frá 2011-13.