*

laugardagur, 11. júlí 2020
Erlent 14. maí 2020 15:15

Lufthansa eins og fulli frændinn

Forstjóri Ryanair vill að milljarða björgunarpakkar fyrir Air France og Lufthansa verði dæmdir ólöglegir.

Ritstjórn
Michael O’Leary, forstjóri Ryanair, vill ekki að keppinautar hans fái sérstakan ríkisstuðning.
epa

„Luftahansa sogar upp ríkisaðstoð eins og fulli frændinn í lok brúðkaups sem drekkur úr hálftómum glösum. Félagið ræður ekki við sig,“ segir Michael O‘Leary, hinn yfirlýsingaglaði forstjóri Ryanair, í viðtali við Bloomberg. 

O´Leary er ósáttur við milljarða evra aðgerðapakka sem stjórnvöld innan ESB vinna nú að til að bjarga flugfélögum í heimalöndum sínum. Hann hefur einsett sér að fá samþykki framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins á ríkisstuðningi við félögin hnekkt.

O´Leary ætlar að höfða dómsmál vegna ríkisstuðnings Þjóðverja við Lufthansa og átta milljarða dollara björgunarpakka Frakka til Air France. Ryanair hefur þegar stefnt framkvæmdastjórn ESB tvívegis í þessum mánuði vegna samþykkis hennar á skattafsláttum í Frakklandi og stuðningi Svía við sænsk flugfélög í kjölfar kórónuveirukreppunnar. 

„Við viljum ekki ríkisaðstoð en það er ætlast til að við keppum, ekki með aðra höndina, heldur báðar bundnar fyrir aftan bak,“ segir O‘Leary

O’Leary segir útgjöld Lufthansa nú þegar að mestu greidd af þýska ríkinu með stuðningi við greiðslu launa. „Hvers vegna þarft þú þá allt „krakkið“ (e. crack cocaine) sem felst í 12 milljarða ríkisaðstoð?“ spyr O‘Leary. Þýsk stjórnvöld eiga enn í viðræðum við Lufthansa um björgunaraðgerðir fyrir félagið. Þá gagnrýnir O‘Leary einnig stuðning ítalskra stjórnvalda við flugfélagið Alitalia.

O’Leary óþægur ljár þúfu

Undanfarin aldarfjórðung hefur O’Leary tekið þátt í um fimmtíu málum fyrir dómstólum ESB, oftast til að fá samþykki framkvæmdastjórnar ESB hnekkt.

Framkvæmdastjórn ESB er í snúinni stöðu. Mjög er þrýst á hana að heimila ríkisstuðning sem ætlað er að flýta endurreisn hagkerfa aðildarríkja ESB. Í umfjöllun Bloomberg segir að þegar sé búið að sveigja reglur til að heimila stjórnvöldum að auka stuðning við atvinnugreinar sem orðið hafa illa úti í kórónuveirufaraldrinum. Framkvæmdastjórnin hefur hins vegar það hlutverk að hindra ríkisaðstoð sem veitir einstaka fyrirtækjum ósanngjarnt samkeppnisforskot á keppinauta.

Framkvæmdastjórn ESB og O’Leary eru sögð deila áhyggjum um að flugfélögin sem lifi af vegna ríkisstuðnings muni geta boðið lægra farmiðaverð en aðrir og tekið yfir samkeppnisaðila sem ekki fá sama stuðning. Því hefur framkvæmdastjórnin reynt að setja skilyrði að yfirtökur verði bannaðar sem skilyrði fyrir ríkisstuðningi.