Þýska flugfélagið Lufthansa hefur í hyggju að setja áttatíu vélar til viðbótar í loftið í næsta mánuði. Aðgerðin er sögð liður í að svara eftirspurn eftir flugi. Sagt er frá á vef Reuters .

Líkt og hjá flestum flugfélögum heimsins hefur floti Lufthansa verið meira og minna á jörðu niðri eftir ferðatakmarkanir sem leiddu af flakki Covid-19 um jarðarkringluna. Mörg ríki hafa hins vegar náð ágætis árangri í að hefta útbreiðslu veirunnar.

„Við finnum fyrir mikilli eftirspurn hjá fólki eftir því að ferðast á nýjan leik. Hótel og veitingastaðir eru að vakna til lífsins hægt og rólega á ný, og heimsóknir vina og fjölskyldna eru víða leyfilegar aftur,“ segir Harry Hohmeister, stjórnarmaður Lufthansa, við Reuters.

Fjölgunin þýðir tvöföldun í vélum Lufthansa á lofti en síðastliðnar vikur hafa um 80 vélar verið gerðar út. Í byrjun árs átti Lufthansa samsteypan, sem meðal annars inniheldur Austrian Airlines og Swiss International Air Lines, 763 flugvélar.