Deutsche Lufthansa AG, eigandi flugfélagsins Germanwings, gæti borið ótakmarkaða ábyrgð vegna skaðabóta til fjölskyldumeðlima þeirra sem létust í flugslysi með þotu Germanwings í frönsku ölpunum. Þetta segir lögfræðingur í samtali við Bloomberg.

Í samtali við Bloomberg segir lögfræðingur sem sérhæfir sig í flugiðnaðinum að það standi um einn milljarður bandaríkjadollara til boða í tryggingar fyrir Germanwings. Stofa hans metur sem svo að útborgaðar skaðabætur muni nema allt að 350 milljónum dollara.

Flugslysið varð á þriðjudaginn síðastliðinn en allt lítur út fyrir að aðstoðarflugmaður þotunnar hafi brotlent henni viljandi. Allir 150 farþegar þotunnar og áhöfn hennar létust.

Nánar er fjallað um málið á vef Bloomberg .