Þýska flugfélagið Lufthansa hefur undanfarin ár flogið til Keflavíkur frá Berlín, Dusseldorf og Hamborg í Þýskalandi. Hins vegar hefur dótturfélag þess, German Wings, tekið við þessum flugleiðum og var útlit fyrir að Lufthansa myndi ekki fljúga til Íslands næsta sumar.

Fram kemur á vef Túrista að forsvarsmenn Lufthansa hafi hins vegar ákveðið að auka umsvif sín á Norðurlöndunum. Hluti af þeirri sókn sé að bjóða upp á tvö flug í viku til Íslands frá Frankfurt. Icelandair hefur um árabil verið með beint flug til borgarinnar og boðið upp á tvær ferðir til borgarinnar allt árið um kring.

Nú er hins vegar von á samkeppni frá Lufthansa. Flugfélagið mun starfrækja þessa flugleið frá 2. maí til 28. september og verður flogið á fimmtudögum og laugardögum. Notaðar verða flugvélar af gerðinni Airbus 319 og verða sæti fyrir 138 farþegar í tveimur farrýmum.