Stjórn þýska flugfélagsins Lufthansa hefur pantað 30 stykki af nýrri útgáfu Airbus A320 flugvélarinnar, svokallaðri A320neo útgáfu.

A320neo er með sparneytnari hreyflum en eldri útgáfan og á að vera mun langdrægari. Pöntunin er samansett af 25 A320neo vélum og fimm A321neo, sem er lengri útgáfa af vélinni. Hin svokallaða A320 fjölskylda Airbus samanstendur af A318, A319, A320 og A321 sem allar eru mislangar.

Í tilkynningu frá Airbus kemur fram að samningurinn sé 2,8 milljarða dala virði.

Lufhansa er stærsti einstaki viðskiptavinur Airbus en félagið er nú með 338 Airbus vélar í sinni þjónustu. Þar af á félagið 236 vélar úr A320 fjölskyldunni, 33 A330 vélar, 65 A340 vélar og fimm A380 vélar. Þá á Lufthansa pantaðar fyrrnefndar 30 vélar af A320neo auk þess sem félagið á pantaðar 60 vélar af eldri útgáfu A320, átta A330 vélar og 10 A380 vélar.

Með nýrri og endurbættari hreyflum og stærri vængjabörðum (sem Airbus kallar sharklet en Boeing kalla winglet) á A320neo vélin að spara um 15% af því eldsneyti sem hún notar núna. Þannig á véin að fljúga allt að 950 km. lengra en eldri útgáfan. Þá á vélin að menga minna auk þess sem hún á að vera hljóðlátari en eldri útgáfan af A320.