Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson hefur átt viðburðaríkan starfsferil. Hann hóf feril sinn í fjármálageiranum hjá Kaupþingi á Norðurlandi en hélt til Reykjavíkur árið 1999 þar sem hann kom af stað deild eigin viðskipta og var framkvæmdastjóri hjá Kaupþingi til 2006. Það ár stofnaði hann ásamt öðrum fjárfestingarbankann Saga Capital og var forstjóri hans til ársins 2010. Saga Capital var tekið til slitameðferðar árið 2012 og í lok síðasta árs var Þorvaldur dæmdur í héraðsdómi Reykjavíkur í 18 mánaða fangelsi fyrir aðild sína að hinu svokallaða Stím-máli. Þorvaldur áfrýjaði dómnum samdægurs og í sumar stofnaði hann ásamt öðrum flugfélag sem sérhæfir sig meðal annars í útsýnisferðum fyrir ferðamenn.

Því hefur verið tekið fagnandi að sjá hversu margir fyrrverandi bankastarfsmenn hafa verið sóttir til saka eftir hrun og jafnvel dæmdir. Hvað þykir þér um það?

„Sú söguskýring hefur einhverra hluta vegna verið vinsæl á Íslandi að hrunið hafi verið einstakt íslenskt fyrirbrigði sem gerðist af völdum nokkurra jakkafataklæddra manna sem með vilja og ásetningi reyndu að steypa samfélaginu í glötun. Þetta hefur verið lífseig mýta sem í mínum huga stenst engan veginn og sér í lagi þegar haft er í huga að hagsmunir þessara sömu manna fóru saman við það að efnahagslífið myndi standa af sér storminn. Frá örófi alda hefur tíðkast að koma ástæðum og sök vegna ákveðinna atburða á einhvern afmarkaðan hóp eða jafnvel einhvern einn einstakling. Það er þægileg og einföld lausn fyrir marga. Mér sýnist að það hafi orðið eitthvert rof í samfélaginu þar sem það hefur skyndilega þótt allt í lagi að veitast að mönnum með persónulegum svívirðingum og óstaðfestum fréttum, ýmiskonar dylgjum og fleiru. Það eru svokölluð Lúkasarmál á hverju strái og í mörgum tilvikum er öllum almennum grundvallaratriðum eins og sönnunarbyrði vikið til hliðar. Sönnunarbyrðin er jafnvel orð- in öfug þar sem einstaklingnum er ætlað að sanna sakleysi sitt en ekki ákæruvaldinu að sýna fram á sekt. Það er auðvitað grafalvarlegur viðsnúningur frá grundvallaratriði réttarríkisins og ég óska engum manni þess að þurfa að reyna slíka stöðu á eigin skinni.“

Það ku hafa sést á þér að niðurstaða dómsins í Stím-málinu kom þér á óvart. Var þetta áfall?

„Auðvitað var þetta áfall. Ég var búinn að bíða í sex ár eftir sýknudómi. Fram að þeim degi trúði ég að dómur myndi verða í samræmi við sannleikann, framlögð gögn, málflutning og vitnisburði í réttarhöldum. Það er inngróið í okkur að við viljum trúa á réttlæti og réttarkerfið en því miður virðist því geta fatast flugið. Mér finnst allavega býsna huglæg afstaða birtast í því hvaða gögn eru gerð aðgengileg og hvaða gögn týnast í meðförum saksóknaraembættisins, t.d. sönnunargögn sem sýna fram á sýknu. Í mínu máli, og ég held að sama hafi gerst í fleiri tilfellum, var því t.d. hafnað að gögn sem sýndu fram á rangan málatilbúnað ákæruvaldsins yrðu lögð fram. Sá sem dæmdi í því hvort saksóknara bæri að leggja þau gögn fram eða ekki var síðan sá sami og dæmdi í málinu. Mér finnst þetta mjög skrítið og veit að sama gildir um marga löglærða menn.“

Þægilegt að kenna afmörkuðum hópi um

Heldurðu að fólki hætti til að draga „of mikinn“ lærdóm af hruninu og finni galla í einhverju sem var kannski ekki gallað í sjálfum sér?

„Það er gömul saga og ný að í aðdraganda áfalla og eftir þau er gjarnan farið öfganna á milli. Þannig var kannski búið að slaka einum of mikið á löggjöf, eftirliti og aðhaldi með fjármálamörkuðum fyrir hrun. Síðan kemur hrunið og eftir það erum við komin í hina stöðuna að það á að reyna að byrgja brunninn eftir að barnið er dottið ofan í. Þetta endurtekur sig í sögunni, en ef menn hefðu yfirvegun og jafnvel kjark til að horfa yfir sviðið í sögulegu samhengi myndum við kannski ná að dempa þessar öfgar. Fyrir hrun voru fjölmiðlar t.d. allt að gagnrýnislausir viðhlæjendur vaxtar og útrásar. Mér eru minnisstæðir pistlar Sigrúnar Davíðsdóttur í Ríkisútvarpinu á dögum útrásar Baugs og Bakkavarar um hvað það væri gaman að vera Íslendingur í London því þar drypi smjör af hverju strái og allir töluðu svo vel um Íslendinga. Síðan kemur hrunið og þá taka fjölmiðlar algjörlega hinn pólinn í hæðina; það er allt ómögulegt, það eru allir glæpamenn og þetta var allt ein svikamylla. Það er auðvitað þægileg leið fyrir fjölmiðla, stjórnmálamenn og eftirlitsiðnaðinn að kenna einum afmörkuðum hópi, þ.e. bankamönnum, um þetta allt, en ég vil halda því fram að það sé mikil einföldun og í raun hættulegur flótti því ef við göngumst ekki öll við mistökum okkar, lærum af þeim og göngum síðan áfram reynslunni ríkari inn í næsta kafla, festumst við á vondum stað.“

Skilurðu biturð fólks sem missti mikið af sínum eignum í hruninu?

„Já, ég skil það mjög vel og samsama mig því líka. Sem betur fer hafa hins vegar margir utanaðkomandi þættir hjálpað samfélaginu að komast efnahagslega upp úr þessu þótt enn séu mörg djúp sár til staðar. Sem þjóð vorum við öll í sama vagni sem fór allharkalega út af veginum í aftakaveðri. Einhverjir aftast í vagninum þrátta síðan ennþá bara um það af hverju við fórum út af, halda því jafnvel fram að bílstjórinn hljóti að hafa verið fullur og heimta hann hengdan í hæsta gálga án þess að ölvunaraksturinn hafi verið sannaður. Svo eru aðrir um borð í vagninum sem reyna að fara út að ýta og koma vagninum aftur af stað. Ég vil miklu frekar vera í þeim hópi sem ýtir vagninum eða dregur heldur en að sitja í aftursætinu og orna sér aðallega við það að sjá einhverja meinta sökudólga látna sæta ábyrgð með ærnum tilkostnaði. Ég skil þessa reiði mjög vel því ég upplifði það sjálfur að eiga peninga og tapa þeim öllum og meiru til.“

Nánar er rætt við Þorvald í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .