Þær upplýsingar sem Davíð Oddsson seðlabankastjóri segist luma á varðandi þá ákvörðun Breta að beita hryðjuverkalögum gætu haft áhrif á fyrirhuguð málaferli íslenskra stjórnvalda í Bretlandi. Þetta kemur fram í grein í Financial Times í dag, sunnudag.

Þar er vísað til ræðu Davíðs á fundi Viðskiptaráðs í liðinni viku.

FT vitnar m.a. í orð Davíðs þar sem hann fjallar um hryðjuverkalögin sem Bretar beittu með því að frysta eignir Landsbankans þar í landi.

FT vitnar í eftirfarandi orð Davíðs: "Það hafa ekki öll samtöl verið birt hvað þessi mál varðar...Þegar málin verða rannsökuð, þá hljóta fleiri samtöl að verða birt. Mér er kunnugt um efni þeirra og mér er kunnugt um hvað í raun réði afstöðu breskra stjórnvalda."

FT segir að með þessu sé Davíð að gefa í skyn að það sé Íslendingum sjálfum að kenna að Bretar beittu hryðjuverkalögunum. Blaðið segir enn fremur að verði upplýsingarnar gerðar opinberar kunni það að veikja fyrirhuguð málaferli íslenskra stjórnvalda í Bretlandi.

Blaðið rifjar upp að íslensk stjórnvöld hafi fengið þekkta lögmannsstofu, Lovells, til að kanna hvort hægt verði að sækja bætur á hendur breskum stjórnvöldum vegna hryðjuverkalaganna og þess tjóns sem íslensk fyrirtæki urðu fyrir vegna þeirra.