Sala á Lumina-símunum frá Nokia hefur verið betri en menn þorðu að vona, að sögn Stephen Elop, forstjóra farsímafyrirtækisins. Nokia setti á markað 4,4 milljónir Lumia-síma á fjórða ársfjórðungi. Þetta var fyrsti fjórðungurinn í eitt og hálft ár sem stjórnendur Nokia horfa á aukna sölu í bókum fyrirtækisins.

Lumia 920
Lumia 920
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Þrátt fyrir þetta er reiknað með því að sölutekjur Nokia af öllum tækjakosti og þjónustu muni nema 3,9 milljörðum evra á fjórðungnum samanborið við 6 milljarða á sama tíma í fyrra. Nokia sendi frá sér 86,3 milljónir tækja á árinu öllu samanborið við 113,5 milljónir tækja árið 2011.

Á vef bandaríska dagblaðsins The Wall Street Journal kemur fram að Elop sé hæstánægður með nýjustu Lumia-símana sem komu á markað í fyrrahaust og beri miklar væntingar til þeirra þótt skortur á íhlutum hafi valdið því að fyrirtækið hafi ekki átt næg tæki til að sinna eftirspurninni eftir nýjastas símanum, Lumia 920, sem kom á markað í fyrrahaust. Hann er hins vegar hæfilega bjartsýnn á horfurnar á þessu ári enda búist hann við því að árið verði erfitt.

Blaðið segir fjárfesta og aðra fjármálasérfræðinga fylgjast grannt með þróun mála hjá Nokia enda hefur verið sagt að gangi áætlanir ekki upp kunni svo að fara að sjóðir Nokia tæmist. Elop tók við stjórnartaumum hjá Nokia síðla árs 2010 og hefur hann unnið hörðum höndum að því að snúa rekstrinum til betri vegar, svo sem með sölu eigna og uppsögnum á starfsfólki. Uppgjör fyrirtækisins verður birt síðar í mánuðinum.

Viðskiptablaðið prófaði Lumia 920-síma frá Nokia í fyrra. Hér má skoða umfjöllunina.

Lumia 920 - Myndavélin gerir útslagið