"Mér skilst að auglýsingasala [danska fríblaðsins] Nyhedsavisen hafi tvöfaldast daginn eftir að það var tilkynnt um kaup Morthens Lund í félaginu," sagði Ari Edwald, forstjóri 365 [ 365 ], á afkomufundi félagsins.

"Ég held að það sé ekki bara vegna þess að Íslendingar séu svo óvinsælir eða Danirnir fegnir að við séum komnir í minnihluta. Morthen Lund er þekktur maður í Danmörku. Ég sé á fjölmiðlum þar að það er mikið fjallað um hann," útskýrði Ari.

Lund efnaðist mikið þegar uppboðsvefurinn eBay yfirtók netsímafyrirtækið Skype. Tilkynnt var um kaup hans á 51% hlut í útgáfufélagi Nyhedsavisen um miðjan janúar. Áður átti Dagsbrun Mediafund, sem 365 á 17,4% hlut í, útgáfufélagið að fullu. Útgjöld 365 við stofnun Dagsbrun Mediafund voru yfir 600 milljónir króna, að sögn Ara.

Ari sagði frá því að Nyhedsavisen mældist nú sem útbreiddasta dagblað Danmerkur, með 604.000 lesendur, samkvæmt nýjustu mælingu Gallup. Danska fríblaðiðið 24timer, sem gefið er út af JP/Politikens Hus er í öðru sæti með 554.000 lesendur og Jyllands-Posten í þriðja sæti með 508.000 lesendur.