Eyjólfur Pálsson lagði grunninn að hönnunarversluninni Epal árið 1975 þegar hann kom til landsins með ferðatösku fulla af varningi en verslunin hefur verið rekin á sömu kennitölu frá upphafi.

„Ég er lærður húsgagnasmiður og lærði líka húsgagnaarkitektúr í Kaupmannahöfn og vinn á teiknistofu eftir það. Svo kem ég heim og byrja að vinna en sé að fullt af hlutum sem ég hafði notað úti eru ekki til hérna heima. Ég leitaði þá að einhverjum til að hjálpa mér að flytja ýmsa hluti inn, sem enginn vildi. Þá gerði ég það bara sjálfur. Þegar ég fór út með ferðatöskuna fór ég til arkitekts sem ég vann hjá í Kaupmannahöfn. Hann var vinur þeirra sem áttu textílfyrirtækið Kvadrat. Þeir gáfu mér allar prufur fyrirtækisins og sögðu mér að gá hvort ég gæti selt þær þegar ég kæmi heim,“ segir Eyjólfur.

„Skömmu síðar fóru að berast pantanir um 1.000 metra af efni í skólabyggingar. Þá fór maður að hugsa að það væri kannski í lagi að stofna fyrirtæki utan um þetta.“

Nafn fyrirtækisins hefur löngum verið tengt við þá sem njóta þess betra sem lífið hefur fram að færa. Þannig hefur fólk af góðum efnum á mið- eða vinstrivæng stjórnmálanna verið uppnefnt Epalkommar. Í kosningu Rásar 2 um orð ársins í fyrra varð nýyrðið Epalhommi valið – fengið úr orðasmiðju Hildar Lillendahl. Auglýsingastofan Brandenburg var á sínum tíma ekki lengi að hafa samband við Eyjólf og skapaði eftirminnilega auglýsingu fyrir fyrirtækið.

„Ég var nýlega að leita í íslenskum orðaskrám og fann hvergi Epal sem íslenskt orð. Ég man að þegar ég lét skrá fyrirtækið þá voru menn viðkvæmir fyrir því að nafnið væri ekki íslenskt. Ég spurði þá hvort Ópal væri íslenskt orð,“ segir Eyjólfur. Þar með lauk þeirri umræðu, en nafn fyrirtækisins er dregið af fyrstu stöfunum í nafni Eyjólfs: E yjólfur Pál sson. Fyrirtækið er að megninu til í eigu Eyjólfs en fjölskylda og nánir samstarfsmenn eiga einnig hlut í fyrirtækinu, sem er í raun fjölskyldufyrirtæki.

Ég ímynda mér að töluvert hafi breyst á þessum bráðum 43 árum sem fyrirtækið hefur starfað.

„Já, skilningur á hönnun og öllu því hefur aukist. Orðið hönnun var búið til af prófessor við Háskóla Íslands fyrir nokkrum áratugum. Á tíunda áratugnum fengum við Guðmund Andra Thorsson til að halda tölu um hönnun. Sumum finnst kannski skrýtið að fá hann til þess. En hún þótti svo flott að arkitektafélagið bað um að birta töluna sem grein í blaðinu sínu,“ segir Eyjólfur. „Ég velti stundum fyrir mér hvernig við höfum fengið allar okkar hugmyndir gegnum tíðina. En þegar þú hefur stundað sýningar gegnum árin og farið mörgum sinnum á ári til Stokkhólms, Kaupmannahafnar eða Mílanó og víðar þá safnar þú ýmsu í kollinn og prjónar úr því. Ætli þetta sé ekki bara eins og þeir sem skrifa skáldsögur. Það er alltaf út frá einhverjum forsendum sem þeir hafa upplifað en ekki bara út í loftið. Sama held ég að sé hjá okkur.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .