Langoftast er flogið til Lundúna frá Keflavíkurflugvelli af öllum áfangastöðum, og nemur hlutfall ferða þangað um fimmtungi af öllum áætlunarferðum hingað til lands.

En á sama tíma er flogið héðan reglulega til sjö annarra breskra borga að því er Túristi bendir á, auk þess sem samkeppni er um hverja flugleið. Bjóða til að mynda fimm flugfélög upp á áætlunarferðir til Lundúna og geta farþegar til Edinborgar, Manchester, Bristol og Belfast valið úr ferðum tveggja flugfélaga.

Hins vegar er Icelandair eitt um hituna í ferðum til Glasgow og Aberdeen. Í fyrra flugu nærri 1,3 milljónir farþega milli Íslands og Bretlands, sem er aukning um 318 þúsund farþega frá því árið áður, sem er um þriðjungsaukning. Fara langflestir þeirra um Gatwick flugvöll, eða um 405 þúsund, en á annað hundrað þúsund fóru frá Heathrow flugvelli. Í Kaupmannahöfn er hins vegar einungis einn flugvöllur og fóru 534 þúsund faþegar á milli Keflavíkurflugvallar og hans.

Með tilkomu fleiri ferða frá easyJet næsta vetur verður Icelandair svo ekki lengur það félag sem býður upp á flestar ferðir milli Íslands og Lundúna.