Lúðurinn, íslensku auglýsingaverðlaunin, verða veitt í tuttugasta og annað sinn 29. febrúar næstkomandi, á kvölddagskrá Lúðrahátíðar. ÍMARK, félag íslensks markaðsfólks, í samráði við Samband íslenskra auglýsingastofa (SÍA), stendur að baki verðlaununum.

Lúðurinn er opinn öllum sem stunda gerð eða dreifingu auglýsinga á Íslandi og opið er fyrir innsendingar til 17. janúar. Tilgangurinn er að vekja athygli á vel gerðum auglýsingum og auglýsingaefni og veita aðstandendum þess verðskuldaða athygli.

Veitt verða verðlaun í 13 flokkum; sjónvarpsauglýsingar, útvarpsauglýsingar, dagblaðaauglýsingar, tímaritaauglýsingar, vöru- og firmamerki, umhverfisgrafík, veggspjöld, auglýsingaherferðir, markpóstur, viðburðir, vefborðar, opinn flokkur og almannaheillaauglýsingar .

Dómnefnd er skipuð 21 aðila frá ÍMARK, SÍA, FÍT, Orðspori og Félagi kvikmyndagerðarmanna.

Tekið er á móti innsendingum á sérstakri vefsíðu  http://www.outcome.is.

Vefverðlaun 2007

Einnig hafa Samtök vefiðnaðarins opnað fyrir tilnefningar til Vefverðlaunanna 2007 sem afhent verða í byrjun febrúar. Að þessu sinni verða veitt verðlaun í sex flokkum auk þess sem sérstök verðlaun verða veitt fyrir Besta íslenska vefinn 2007 og Björtustu vonina 2007.

Veitt verða verðlaun fyrir besta sölu- og þjónustuvefinn, besta fyrirtækjavefinn, besta vefinn í almannaþjónustu, besta afþreyingarvefinn, besta útlit og viðmót og besta einstaklingsvefinn. Hægt er að tilnefna vefsíðu í einum flokki eða fleirum.

[email protected]