Núverandi bæjarstjóri Hafnarfjarðar, Lúðvík Geirsson, mun gegna því embætti fram til júní 2012 samkvæmt samkomulagi milli Samfylkingarinnar og Vinstri grænna um stjórn bæjarins. Í júní 2012 mun oddviti Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, taka við embætti bæjarstjóra út kjörtímabilið. Lúðvík náði ekki kjöri sem bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í sveitastjórnarkosningunum í lok maí.

Samkomulag um myndun nýs meirihluta í bæjarstjórn Hafnarfjarðar milli Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs var staðfest á fundum flokkanna í kvöld.  Jafnframt var samþykktur málefnasamningur flokkanna og ítarleg verkefnaskrá til næstu fjögurra ára auk samkomulags um skipan í kjörin embætti á kjörtímabilinu.   Yfirskrift málefnasamnings Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í Hafnarfirði er:  Velferð, lýðræði, atvinna og umhverfi fyrir fólkið í Firðinum.

„Nýi meirihlutinn mun leggja ríka áherslu á að standa vörð um félagsleg sjónarmið og lausnir við rekstur bæjarins og tryggja um leið ábyrga fjármálastjórnun.  Þá verður  lögð sérstök áhersla á að bæta möguleika Hafnfirðinga til beinnar þátttöku í stefnumótun og ákvarðanatöku um mál sem þá varðar og efnt verður til margvíslegra aðgerða til að tryggja aukin áhrif íbúanna og aðgang að stjórnkerfi og upplýsingum.  Leitað verður eftir víðtæku samráði og  samvinnu milli allra bæjarfulltrúa og starfsmanna bæjarins til að fylgja  eftir góðum árangri og bæta enn frekar rekstur bæjarins með hagkvæmni, aðhaldi og góðu skipulagi.  Meginmarkmiðið er að tryggja jákvæða rekstrarafkomu og auka á ný veltufé frá reksti," segir í tilkynningu frá nýja meirihlutanum.