Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði, segir að sá möguleiki hafi ekki verið ræddur á vettvangi bæjarstjórnar að bærinn kaupi sig aftur inn í HS Orku. „Það hefur ekki verið rætt í okkar hópi," segir hann.

„Við höfum hins vegar tekið þá pólitísku ákvörðun að vera ekki með eignarhlut í HS Orku en halda þessum hlut [tæplega 15%] í HS Veitu." Sem kunnugt er var Hitaveitu Suðurnesja skipt upp í HS Orku og HS Veitu á síðasta ári.

Fjármálaráðherra og iðnaðarráðherra upplýstu í sérstakri tilkynningu í byrjun vikunnar að þeir hygðust stofna hóp sem ætti að ræða þann möguleika að kaupa meirihluta hlutafjár í HS Orku. Í hópnum ættu að vera fulltrúar ríkisins, lífeyrissjóðanna, Grindavíkur og fleiri sveitarfélaga.

Hópurinn hefur enn ekki verið skipaður og ekki liggur því fyrir hvaða önnur sveitarfélög en Grindavík verði með fulltrúa í honum.

Deilurnar leysist sjálfkrafa

Hafnarfjarðarbær seldi sem kunnugt er 0,7% hlut sinn í HS Orku til kanadíska félagsins, Magma Energy, í sumar. Hluturinn var seldur á um 298 milljónir króna. Í samningnum er gert ráð fyrir að 30% verði þegar innt af hendi og afgangurinn verði greiddur með skuldabréfum til sjö ára.

Auk þess má geta að Hafnarfjarðarbær og Orkuveita Reykjavíkur hafa deilt um tæplega fimmtán prósenta hlut í HS Orku sem tilheyrt hefur Hafnarfirði en í samningum frá árinu 2007 er OR skuldbundið til að kaupa mestan part hlutsins.

Lúðvík segir að gangi samningar OR og Magma eftir, um að það síðarnefnda kaupi um 32% hlut OR í HS Orku, þá leysist deilurnar sjálfkrafa.

Miðað sé við að Hafnarfjarðarbær fái 7,1 milljarð fyrir hlutinn í HS Orku, sem deilurnar hafa staðið um. Helminginn í peningum og hinn helminginn í skuldabréfum.