Luxair hefur eignast meirihluta í flutningafélaginu Cargolux sem í eina tíð var í meirihlutaeigu Íslendinga. Luxair keypti hlutinn af skiptaráðanda SAirlines sem var hluti af SAir Group sem hrundi í kjölfar þess að Swissair fór í gjaldþrot árið 2002. Sem endranær eru eignartengsl nokkuð flókin í flugheiminum en Luftansa AG á 13% í Luxair og er þar með komið inn í hluthafahóp Cargolux.

Luxair á nú 52,1% í Cargolux en aðrir stórir hluthafar eru tveir bankar í Luxemborg. Annars vegar er það BCEE banki sem er með 13,1% og hins vegar SNCI sem er með 12,6%. Fjárfestingafélagið BIP Investment Partners er með 11,5% og Lúxemborg er með 8%. Flestir af stóru hluthöfunum hafa samþykkt að lána félaginu 200 milljónir Bandaríkjadala og a.m.k. helmingi þess verður breytt í hlutafé. Vefurinn www.aircargoworld.com hefur það eftir Marc Hoffmann, stjórnarformanni félagsins, að nú sé verið að leita að langtímafjárfestum.

Cargolux hefur orðið fyrir barðinu á heimskreppunni eins og aðrir en talið er að loftferðaflutningar hafi dregist saman um 40% miðað við árið 2007/2008. Því er nauðsynlegt að styðja við efnahag félagsins.

Ulrich Ogiermann forstjóri félagsins segir að endurfjármögnun félagsins geri því kleyft að endurskipuleggja flugflota þess og uppfæra hann, meðal annars með tilliti til nýjustu mengunarkrafna. Það mun hefjast á næsta ári þegar félagið tekur við nýjum þotum.

En vinnur nokkur hópur Íslendinga hjá Cargolux en félagið var í eina tíð dótturfélag Loftleiða. Félagið mun fá sína fyrstu B747-8 þotu á næsta ári.