Haraldur Ingi Birgisson hefur tekið við starfi lögfræðings á skatta- og lögfræðisviði Deloitte en hann hefur síðastliðin þrjú ár verið aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs. „Ég er mjög spenntur fyrir nýju starfi enda afskaplega gaman að fá tækifæri til að starfa hjá jafn öflugu fyrirtæki og Deloitte,“ segir Haraldur. Hann segist þó muna sakna gömlu vinnufélaganna hjá Viðskiptaráði, enda starfað þar allt frá árinu 2007. Haraldur byrjaði fyrst sem lögfræðingur hjá Viðskiptaráði, varð síðar yfirlögfræðingur, og starfaði meðal annars sem framkvæmdastjóri ráðsins tímabundið eftir að Finnur Oddsson lét af störfum.

Spurður um helstu verkefnin í nýju starfi hjá Deloitte segir Haraldur að hann muni meðal annars sinna ráðgjöf á sviði verðlagningar í viðskiptum milli tengdra aðila, svokallaðrar milliverðlagningar. „Þetta er áhugavert verkefni, sérstaklega í ljósi þess að á Viðskiptaþingi Viðskiptaráðs vorum við einmitt að fjalla um fyrirtæki í alþjóðlegri starfsemi, en íslensk fyrirtæki eru mörg hver með dótturfélög hérlendis og erlendis og þurfa því að huga að þessum þáttum. Verkefni mín hjá Deloitte hafa þannig bæði innlendar og alþjóðlegar hliðar,“ segir Haraldur.

Haraldur lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Kópavogi og fór þaðan í lögfræði við Háskólann í Reykjavík. „Við vorum fyrsti árgangurinn í lögfræðideildinnií HR. Það var algjör lúxus að fá svona góðan aðgang að frábærum kennurum enda lítillog samstilltur hópur á þeim tíma,“ bætir hann við.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.