Óvissa vegna Brexit hefur áhrif á fasteignamarkaðinn í London og þá sérstaklega dýrar eignir. Frá því útgangan var samþykkt í júní 2016 hefur fasteignaverð í dýrustu hverfum borgarinnar lækkað um 14% og sala eigna hefur dregist saman um 19%. Þetta kemur fram í frétt Financial Times ( FT ).

Tekin eru nokkur dæmi. Í mars árið 2017 var sex herbergja hús í Marlborough Place í London sett á sölu á 12,5 milljónir punda eða 2 milljarða. Í dag er húsið óselt og verðið er komið niður í 8,5 milljónir punda eða tæpa 1,4 milljarða. Á tveimur og hálfu ári hefur ásett verð því lækkað um 28%. Í apríl árið 2018 var þriggja herbergja íbúð í Belgravia -hverfinu auglýst til sölu á 6 milljónir punda en í dag er verðið komið niður í 5 milljónir punda, sem er tæplega 17% lækkun.

Gengisþróun breska pundsins, sem hefur veikst töluvert síðustu misseri, hefur einnig haft veruleg áhrif á fasteignamarkaðinn. Ef bandarískur kaupandi hefði keypt hús á 6 milljónir punda í október árið 2015 þá hefði hann þurft að reiða fram 9,2 milljónir dollara fyrir. Miðað við gengi pundsins gagnvart dollar í dag þá hefði hann þurft að borga 7,8 milljónir dollara fyrir sömu eign.

Eins og alltaf er þá sjá einhverjir tækifæri í Brexit -vandræðum Breta. Í FT er rætt við bandarískan kaupsýslumann, sem vildi ekki láta nafn síns getið. Sá hafði nýlega keypt sér íbúð í Mayfair í London á 6 milljónir punda. Tókst honum að ná verðinu niður um 10% í samningaviðræðum við seljandann. Segir Bandaríkjamaðurinn nokkrar ástæður vera fyrir því að hann hafi ákveðið að fjárfesta í London — veikt pund, hagstæðir vextir á lánum og ýktar sögur (e. overblown stories) af flótta fólks úr viðskiptalífinu frá London vegna Brexit .