Tíu herbergja lúxus gistiheimili hefur verið opnað í Reykjanesbæ. A10 er gistiheimili með morgunverði, sem hefur þó vissa sérstöðu. Magnús G. Jónsson, rekstrarstjóri A10, segir að gestir eigi að fá þá tilfinningu að þeir séu á hóteli, þrátt fyrir að ekki sé um hefðbundið hótel að ræða. Hann segir að þetta sé líklega eina gistiheimili landsins sem hefur þessa sérstöðu, að allt sé þrifið á hverjum degi og þjónustan sé sams konar og á hóteli.

Magnús segir að viðskiptavinir verði aðalega erlendir ferðamenn. Markmiðið sé að fá þá til að gista fleiri en eina nótt á svæðinu. Hingað til hafi mynstrið verið þannig að ferðamenn gisti einungis brottfarar- eða komunóttina á Reykjanesinu en dvelji þess utan í Reykjavík eða annars staðar. Magnús segir að einungis um 4% af öllum ferðamönnum sem fari um Keflavíkurflugvöll gisti í Reykjanesbæ í fríinu. Þessu vilja þau breyta.

A10 er sannkallað fjölskyldufyrirtæki en móðir Magnúsar og eiginmaður hennar eiga veg og vanda að uppbyggingu gistiheimilisins og standa að rekstrinum auk Magnúsar. Þá hjálpa fleiri fjölskyldumeðlimir til við starfsemina. Því er um mjög persónulega þjónustu að ræða. Fjölskyldan hóf starfsemina í júlí í fyrra en miklar breytingar og umbætur hafa verið gerðar á húsnæðinu síðustu misseri. Nú er þeim breytingum hins vegar lokið og gistiheimilið opnað í þeirri mynd sem það mun líta út.

Magnús segist bjartsýnn á sumarið og bókunarstaðan sé góð. Ef fram fer sem horfir ætti að vera grundvöllur fyrir heilsársrekstri þessa lúxus gistiheimilis.

A10 útiaðstaða
A10 útiaðstaða
© Eva Björk Ægisdóttir (Eva Björk )
Útiaðstaða gistiheimilisins

A10 Norðurljósasalur
A10 Norðurljósasalur
© Eva Björk Ægisdóttir (Eva Björk )

Norðurljósasalurinn

A10 herbergi
A10 herbergi
© Eva Björk Ægisdóttir (Eva Björk )