Sala lúxusbifreiða til einstaklinga frá áramótum til pálmasunnudags var 28,3% meiri en á sama tímabili á síðasta ári. Þá hefur einnig orðið sprenging í sölu nýrra bíla til bílaleigna. Þetta kemur fram í greiningu Brimborgar á tölum Samgöngustofu, en Morgunblaðið greinir frá henni.

Einstaklingar keyptu 118 lúxusbíla á tímabilinu en 92 á síðasta ári. Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar, áætlað að lúxusbíll kosti að meðaltali 8,5 milljónir króna, en sé tekið mið af því seldust slíkir bílar fyrir rúman milljarð á tímabilinu en 782 milljónir í fyrra.

Egill segir nýja kaupendahópa vera að koma inn á markaðinn og með sama áframhaldi muni seljast 12 þúsund nýir fólksbílar í ár, en þeir voru 10.462 talsins í fyrra. Hann segir að sögulega séð sé salan til einstaklinga og fyrirtækja enn lítil. „Ef salan til einstaklinga og fyrirtækja vex um 15% yrði salan um 6.900 nýir bílar. Það er ekkert sérstaklega mikið en samt miklu meira en undanfarin ár.“