Eigendur bresku bílaframleiðslu Rolls-Royce segja að bílasala sé með besta móti en sölumet var slegið í fyrra. Þetta var fjórða árið í röð sem metsala er skráð í sögubækur Rolls-Royce. Fyrirtækið seldir 3.630 bíla undir merkjum fyrirtækisins sem er 1,5% aukning á milli ára. Rolls-Royce ætlar að svara kalli viðskiptavina og fjölga starfsfólki í Bretlandi svo það geti framleitt fleiri bíla.

Eftirspurnin er sérstaklega mikil eftir nýjasta bíl Rolls-Royce, Wraith, sem sýndur var á bílasýningunni í Genf í Sviss í fyrra og kom á markað á fjórða ársfjórðungi nýliðins árs. Fréttavefur BBC hefur eftir Torsten Muller-Otvos, forstjóra Rolls-Royce, að nóg sé að gera í lúxusbílageiranum, sérstaklega í Miðausturlöndum og í Kína. Í Miðausturlöndum jókst sala á bílum Rolls-Royce um 17% á milli ára í fyrra en um 11% í Kína.

Það er þýski bílarisinn BMW sem á bílaframleiðslu Rolls-Royce, sem um áratugaskeið hefur verið á meðal helstu djásna bresks iðnaðar.

VB.is fjallaði um Rolls-Royce Wraith þegar hann var kynntur í fyrra.

Rolls Royce Wraith.
Rolls Royce Wraith.
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)