Fyrstu tíu mánuði ársins hefur sala á nýjum fólksbílum í landinu dregist saman um tæp 12%. Selst höfðu 13.727 nýir bílar sem í raun er mikil sala ef meðaltal síðustu tíu ára er tekið. Það sem skýrir samdráttinn núna er að í fyrra varð algjört metár í sölu nýrra bíla. Bílaumboðin muna ekki aðra eins gósentíð. Það var ekki nóg með að bílasala slægi öll met heldur seldist ennfremur meira magn en nokkru sinni áður af dýrum bílum. Það vakti til dæmis athygli þegar árið í fyrra var gert upp að jepplinga- og jeppaflokkarnir uxu verulega á kostnað þess sem vanalega er nefnt venjulegir fólkbílar, þ.e.a.s. bílar í C- og D-stærðarflokkum. Á sama tíma í fyrra höfðu vissulega selst 15.564 nýir fólksbílar, um 1.800 fleiri bílar, en það sem hefur breyst nú er að á sama tíma og samdráttur er á heildarmarkaðnum er söluaukning á lúxusmerkjunum, í mörgum tilvikum svo um munar.

Sjá úttekt Guðjóns Guðmundssonar á bílakaupum Íslendinga á miðopnu Viðskiptablaðsins.