Benedikt Eyjólfsson forstjóri Bílabúðar Benna óttast að umboðið muni ekki anna eftirspurn eftir Porche bílum í ár að því er Morgunblaðið greinir frá. Hefur hann áhyggjur af því að umboðið muni ekki geta flutt inn nægilega marga bíla, en hann segir eftirspurnina hér á landi sambærilega við olíuríki.

„Við seldum yfir 100 Porsche-bíla í fyrra, sem var mjög gott ár,“ segir Benedikt. „Til að setja það í samhengi eru það um 300 bílar á hverja milljón íbúa. Það er mjög mikið miðað við flest ríki. Held að það séu fyrst og fremst olíuríki sem eru með meiri sölu miðað við íbúafjölda.“

Íris B. Ansnes framkvæmdastjóri Jaguar Land Rover á Íslandi hjá BL tekur í sama streng. „Við teljum að þetta ár verði mjög gott í sölu lúxusbíla,“ segir Íris.„Kaupmáttur er góður sem og andinn í þjóðfélaginu. Við teljum okkur því vera með rétta vöru á réttum tíma.“

Bílar frá síðustu uppsveiflu á leið í förgun

Özur Lárusson framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins segir sölu lúxusbíla fylgja eftir hagsveiflunni en hann bendir á að margir lúxusbílar sem keyptir voru á síðasta þensluskeiði um 2005 til 2008 séu nú að fara í förgun.

„Þessi markaður var mun lengur að taka við sér en hinn almenni markaður,“ segir Özur en hann segir að sala lúxusbíla á síðasta ári hafi verið tvöföld á við árið 2015. Spáir hann að í ár verði um 600 lúxusbílar af um 20 til 22 þúsund nýjum bílum seldir hér á landi.

„Lúxusbílamarkaðurinn er ekki stór markaður hér á landi. Hlutdeild seldra lúxusbíla af mannfjölda er til dæmis minni hér en annars staðar á Norðurlöndunum. Það átti líka við árin 2005-2008. Langflestir nýir bílar sem seljast hér eru fjölskyldubílar.“

Lúxusbílar eru samkvæmt hans mati þeir bílar sem kosta frá 8 milljónum og uppúr, en hann nefnir að stærri útgáfan af Range Rover kosti allt að 30 milljónum þó sporttýpan kosti frá 12 milljónum.