Lúxushótelið Reykjavik EDITION, sem reist hefur verið við hlið Hörpunnar og rekið er af hótelkeðjunni Marriott, er byrjað að auglýsa eftir starfsfólki.

Þegar þetta er skrifað hafa tvær atvinnuauglýsingar verið birtar inni á atvinnuleitarmiðlinum Alfreð. Er annars vegar auglýst eftir innkaupastjóra (e. Purchasing Manager), sem heyrir beint undir fjármálastjóra, og hins vegar þjónustustjóra (e. Stewarding Manager), sem stýrir þjónum hótelsins og heyrir undir yfirkokk.

Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá síðasta sumar er þegar búið að ráða hótelstjóra og fjármálastjóra .

Nokkur töf hefur orðið á opnun hótelsins. Upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir að hótelið myndi opna árið 2018 en var þeim áformum síðar frestað til ársins 2019. Það ár var svo greint frá því að hótelið yrði ekki opnað fyrr en í fyrsta lagi vorið 2020. Kórónuveirufaraldurinn varð svo til þess að enn meiri tafir urðu á opnun hótelsins, en nú virðist fara að styttast í að opnunin verði loks að veruleika.