Bygging 4-5 stjörnu lúxushótels við tónlistarhúsið Hörpu og hótel á Grímsstöðum og í Reykjavík geta skapað 1.700 til 2.100 ársverk á framkvæmdatímanum. Framkvæmdirnar kosta á blinu 30 til 35 milljarðar króna og geta brúað að hluta fyrirsjáanlegt gat í fjárfestingu hér á árunum 2012 til 2014.

Þetta er mat greiningardeildar Arion banka um áhrif erlendrar fjárfestingar á ferðaþjónustu.

Greiningardeildin bendir á að áætluð fjárfesting kínverska fjárfestisins Huang Nubo sé talin vera á bilinu 20 til 30 milljarðar króna. Hótelbygging við Hörpu gæti falið í sér fjárfestingu upp á 6 til 9 milljarða.

Deildin segir í umfjöllun sinni að bygging lúxushótela sé mannaflsfrek framkvæmd og skapi fjölmörg bein og óbein störf á framkvæmdartíma. Ætla megi að fjárfesting í lúxushótelum fyrir 30-35 milljarða króna skapi um 1700-2100 ársverk á framkvæmdatímanum. Afleidd störf yrðu að lágmarki helmingur beinna starfa.

Sömuleiðis bendir deildin á að ætla megi að fyrir hvert 5 stjörnu herbergi þurfi a.m.k. tvo starfsmenn. Hótel af stærðargráðunni 250 herbergi myndu því skapa um 500 manns varanlega atvinnu (án afleiddra starfa). Það eru álíka margir og vinna við álverið á Reyðarfirði.

Dregin er sú ályktun að 35-40% af fjárfestingu í hágæðahótelum séu vinnulaun og því megi áætla að 11-13 milljarða króna verði eftir í landinu á meðan framkvæmdum stendur.

Þá er miðað við hótelherbergin verði 750 og að hingað komi í auknum mæli ferðamenn sem eyða meira en hinn almenni ferðamaður. Gangi það eftir megi álykta að hótelin skapi 18 milljarða króna í gjaldeyristekjur á ári hverju eftir að framkvæmdum lýkur.