Stefnt er að byggingu tveggja lúxushótela við Skíðaskálann í Hveradölum og koma upp heitri heilsulind í Stóradal ofan við skálann. Innlendir og erlendir fjárfestar standa að baki þessari uppbyggingu. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Áætlað er að framkvæmdir hefjist í vor og á að reisa um 100 herbergja hótelbyggingar í tveimur áföngum. Einnig á að endurbyggja skíðalyftuna í Hveradölum þar sem reka á ferðaþjónustu allt árið um kring. Búið er að gera leigusamning við Orkuveitu Reykjavíkur til næstu 50 ára.