Hótelstjórar í París, höfuðborg Frakklands, eru logandi hræddir við íbúðaleiguþjónustuna Airbnb, en hvergi í heiminum eru fleiri gistipláss í boði á vefsíðunni vinsælu.

Lúxushótel í borginni hafa mátt sætta sig við umtalsvert tekjutap vegna íbúðaleigunnar, en 50.000 íbúðir eru til leigu í París.

„Markaðurinn í París á eftir að verða mjög erfiður,“ segir Didier le Calvez, hótelstjóri Bristol hótelsins. Hann og fleiri hótelstjórar eru ósáttir við Airbnb og segir síðuna fá ósanngjarnt forskot í samkeppninni.

Tekjur hótelanna dragast saman

Lítill hluti Airbnb íbúðanna er sannkallaðar lúxusíbúðir sem kosta yfir 500 evrur nóttin, en þær eru um 400 talsins. Ef maður bætir við kostum eins og betri frið og jafnvel auka rúmum, þá er komin mikil samkeppni við lúxushótel á borð við Bristol – sem 1.000 evrur á nóttina fyrir sum herbergi. Alls eru um 1.500 lúxushótelherbergi í París og Airbnb tekur því til sín góðan skerf af markaðnum.

Fyrri hluta ársins lækkuðu tekjur Bristol hótelsins um 20 prósent og nýting hótelsins minnkaði einnig umtalsvert. Það sama átti sér stað á Four seasons George V. Ekki hjálpar það að fínustu Airbnb íbúðirnar eru einnig farnar að bjóða upp á heimilisþrif og annars konar þjónustu.

Ekki í samkeppni

Airbnb segist ekki vera í samkeppni við lúxushótelin.

„Þetta er algerlega ólíkt. Þessi heimili eru valin vegna þeirrar einstöku lífreynslu sem veita og eru mjög ólík því sem lúxushótel bjóða upp á,“ segir Nicolas Ferrary, framkvæmdastjóri Airbnb í Frakklandi.

Lúxushótelin eru ekki sammála, en ný frönsk lög leyfa fólki þar í landi að leigja út heimili sín í allt að fjóra mánuði á ári. Þurfa þau einungis að borga tekjuskatt en ekki aðra skatta og gjöld sem leggjast á hótel.

„Þetta er skatt-árás,“ segir Francois Delahaye, framkvæmdastjóri Plaza Athenee. Jose Silva, sem rekur Four Seasons George V, er einnig ósáttur.

„Það er augljóst að stór hluti viðskiptavina okkar, sérstaklega fjölskyldurnar, munu yfirgefa lúxushótelin,“ segir hann.