Lúxusíbúð þeirra Jóns Ásgeirs og Ingibjargar Pálmadóttur í fjölbýlishúsi við 50 Gramercy Park North á Manhattan í New York sem þau hafa sett í sölu komst í fréttirnar fyrir rúmum þremur árum þegar maður sem bjó í íbúðinni hótaði að fara í mál við þau vegna subbuskapar, trassaskapar og ljótrar eldhúsinnréttingar , sem þótti engan vegin í takt við íburðinn sem einkennir fjölbýlishúsið.

Maðurinn, sem heitir Paolo Zampolli og er samverkamaður milljarðamæringsins Donald Trump, sakaði þau Jón og Ingibjörgu um að hafa skipt út þeirri eldhúsinnréttingu sem fyrir var í íbúðinni fyrir nýja frá Ikea. Þá bætti ekki úr skák að kjúklingavængjum hafði verið kastað niður á svalir hans af þakíbúðinni fyrir ofan, sem jafnframt var í eigu Jóns Ásgeirs og Ingibjargar. Þessu til viðbótar sagði Zampolli að loftræsting í íbúðinni væri biluð, rúða brotin og hluti vantað, svo sem í sturtu í einu baðherbergjanna.

Eins og VB.is hefur greint frá er íbúðin á 16. hæð í lúxusblokk á Manhattan. Hún er tæpir 280 fermetrar að stært, herbergin þrjú og þrjú og hálft baðherbergi. Verðmiðinn á íbúðinni er 10,9 milljónir króna, jafnvirði 1,3 milljarða íslenskra króna. Þau Jón Ásgeir og Ingibjörg áttu um tíma þrjár íbúðir í húsinu. Íbúðin var í raun leigð til félagsins Paramount Realty Group. Leiguverðið nam 312 þúsund dölum á ári, jafnvirði 3 milljóna íslenskra króna á mánuði.

Zampolli lét á endanum málið niður falla.