*

mánudagur, 25. október 2021
Erlent 9. september 2020 14:41

Lúxusíbúðir seldar á miklum afslætti

Sögulegar verðlækkanir á íbúðamörkuðum hinna ríku og frægu í New York borg vegna faraldurs, skatta og óeirða.

Ritstjórn
Útsýni yfir Miðgarð, Central Park, í New York er eftirsótt meðal hinna ríku og frægu.

Verðlækkun á markaði fyrir lúxusíbúðir í New York í kjölfar kórónuveirufaraldursins hefur verið meiri en eftir bæði hryðjuverkaárásirnar 11. september 2001 og eftir fjármálakrísuna 2008.

Til að mynda hefur verðfallið á nýjum íbúðum í West Chelsea hverfinu verið allt að 46%, eða frá 19,5 milljónum dala niður í 10,5 milljónir dala. Það samsvarar lækkun frá 2,7 milljörðum íslenskra króna niður í tæplega 1,5 milljarð króna.

Minnkandi eftirspurn í kjölfar þess að útbreiðsla kórónuveirunnar sem veldur Covid 19 sjúkdómnum frá Wuhan borg í Kína komst í hámæli í mars á þessu ári kemur þó í kjölfar langs tímabils minnkandi eftirspurnar og sölu.

„Það er ekki eins og New York borg sé allt í einu á útsölu. Borgin hefur verið á útsölu síðustu 24 mánuði,“ hefur WSJ eftir Tal Alexander, sem selur lúxusvörur fyrir fasteignasöluna Douglas Elliman. „Sölumenn sem hafa drifkraft og vilja koma sölu í gegn verða að bæta auknum afsláttum við.“

Verðlækkanir dýrustu íbúðanna allt að tveimur þriðju

Verðlækkanirnar nú eru sögulegar, en milli 23. mars síðastliðins og 16. ágúst dróst sala á íbúðum á Manhattan eyju saman um 56% milli ára, og enn meira fyrir eignir yfir 4 milljónir dala, eða um 67%.

Nýjar eignir hafa lækkað um 21% að jafnaði, en nýjar eignir á yfir 4 milljónir dala hafa lækkað um 35% í verði að jafnaði. Á öðrum ársfjórðungi lækkaði verð á lúxusíbúðum um 11% að því er segir í skýrslu Douglas Elliman.

Ástæðan er sögð vera harðar reglur um bann við samkomum og samskiptum, svo fasteignasalar sem ekki gátu lengur tekið við viðskiptavinum þurftu að sýna eignirnar í gegnum rafræna miðla sem þeir segja skila litlu.

Mótmæli, skattar og róttækir stjórnmálamenn hræða

Með mótmælaöldunni sem kom í kjölfar dauða blökkumannsins Goerge Floyed við handtöku lögreglu höfðu einnig mikil áhrif á borgina og leiddi til að lokað var fyrir og neglt fyrir glugga og hurðir á verslunum, söfnum og veitingastöðum í borginni.

Til viðbótar segja fasteignasalar að alltaf dragi úr sölu eigna þau ár sem forsetakosningar standa yfir í landinu, sem og nýir skattar á lúxusíbúðir hafa dregið úr vilja kaupenda.

Áhyggjur af auknum kröfum róttækra vinstrimanna í borginni eins og þingfulltrúans Alexandria Ocasio-Cortez og annarra demókrata hefur svo aukið áhyggjurnar. Margir ríkir New York búar hafa þess vegna valið að flytja til Hamptoms í austurhluta borgarinnar, sem og til Palm Beach í Flórída.

Hefur borið svo mikið á því að Andrew Cuomo ríkisstjóri New York hefur sagt í gríni að hann bjóði hverjum þeim í hópi hinna efnameiri sem snúi aftur til borgarinnar upp á drykk til að hressa við fjárlög hennar. Hann hefur jafnframt lagst gegn frekari sköttum á milljarðamæringana af ótta við að flæma þá úr borginni.

Aðrir hafa nú loksins efni á draumaíbúðum

Meðal þeirra sem hafa þurft að selja með miklum afslætti er fjármálamaðurinn Michael Price sem seldi ríflega 800 fermetra íbúð sína í Upper East Side hverfinu á 18,8 milljón dali, sem er 51% afsláttur af 38 milljón dala verðinu sem upphaflega var sett á íbúðina. Michael keypti íbúðina á 14 milljónir dala árið 2003.

Mestu afslættirnir eru þó sagðir vera í nýbyggingum þar sem fjárfestar sem hófu framkvæmdir árið 2016 eru sagðir heppnir að ná því út sem þeir lögðu í þær. Hins vegar gangi betur að selja íbúðir sem séu með góðu útirými og skrifstofum heima við að sögn Scott Harris í fasteignasölunni Brown Harris Stevens.

Á móti kemur þá hafa sumir sem ekki hafa séð kost á því að kaupa svona eignir hingað til nú geta nýtt lág verð til að stökkva á draumaeignir. Framkvæmdaaðilar voni nú að staðan á fasteignamarkaðnum sé að ná nýju jafnvægi þó ekki séu jafnmikil gróðatækifæri en áður, í stað þess að botninn sé algerlega dottinn úr honum.