Á sama tíma og auðkýfingar í Evrópu hafa neyðst til að horfa upp á verðlækkun á fasteignum sínum þá gegnir öðru máli um þá sem búa í betri og dýrari byggðinni í London. Þar hefur fasteignaverð hækkað um 8% frá áramótum.

Breska dagblaðið Guardian segir frá því á vef sínum að verð lúxuseigna ríka fólksins hafi að meðaltali lækkað um 0,4% í Evrópu á fyrsta ársfjórðungi. Það dregur úr 1,7% hækkun á eignaverðinu á öllu síðasta ári. Mesta verðlækkunin var í París í Frakklandi, Zurich í Sviss, í Madrid á Spáni og í Róm á Ítalíu.

Blaðið hefur upplýsingarnar upp úr skýrslu ráðgjafafyrirtækisins The Knight Frank, sem sérhæfir sig í umfjöllun um fasteignamarkaðinn. Þar segir að verðlækkun á fasteignamarkaði í London hafi gengið til baka og það tekið að hækka á ný. Reyndar er tekið fram að þróunin er nokkuð misjöfn eftir landshlutum. Þannig hafi verð nýrra fasteigna í Bretlandi lækkað að jafnaði á sama tíma og fasteignaverð hafi haldið áfram að hækkaði í höfuðborginni. Á síðastliðnum sex árum, þ.e.. frá árinu 2007, hefur verðið lækkaði um 10% í norðurhluta Bretlands á meðan það hefur hækkað um 29% í London.