Lúxusíbúðir í London lækkuðu um 3,7% í janúar og hafa aðeins einu sinni lækkað jafn mikið á milli mánaða. Þetta gerist vegna þess að væntanlegir kaupendur að slíku húsnæði eiga erfitt með að verða sér úti um lán frá bönkum sem hafi orðið illa úti í fjármálakreppunni, segir í frétt Bloomberg.

Fyrrnefnd lækkun á við um íbúðir eða einbýlishús sem kosta meira en eina milljón punda í dýrustu hverfunum í London. Á síðustu 12 mánuðum hefur verðið fallið um 21%, samkvæmt tölum frá ráðgjafarfyrirtækinu Knight Frank, sem segist aldrei hafa mælt meiri lækkun á einu ári. Mælingarnar hófust árið 1976.

Að sögn fyrirtækisins ætti húsnæðisverð að fara að ná jafnvægi undir lok þessa árs en ólíklegt er talið að hækkun á verði fari að sjást á næsta ári. Spáð er að þegar lækkunin verður öll komin fram hafi hún orðið 35% frá því verðið var sem hæst.