Verulega hefur dregið úr eftirspurn eftir lúxusíbúðum í London upp á síðkastið. Undanfarin ár hafa margir verktakar byggt mikið af dýru húsnæði enda hefur eftirspurn eftir því verið mikil og vaxandi. Hefur fasteignaverð hækkað verulega í London. Í frétt í netútgáfu The Daily Telegraph kemur fram að byggingafélagið Country & Metropolitan hefur lækkað lúxusíbúðir við Gerrards Cross um ríflega helming.

Félagið hefur til þessa verðlagt íbúðirnar á um tvær milljónir punda (260 milljónir kr.) en hefur boðið þær til kaups á tæplega 900.000 pund undanfarið. Einnig hefur það gert tilraunir með að skipta eignunum upp og minnka þær verulega. Bjóðast nú svokallaðar smáíbúðir á um 100.000 pund sem er umtalsverð breyting frá fyrri söluáformum. Í viðtali við framkvæmdastjóra Country & Metropolitan, Stephen Wicks, kemur fram að fyrir tveimur árum hafi þeir byrjað að verða varir við minni eftirspurn eftir glæsiíbúðum. Enn verði þeir hins vegar varir við eftirspurn á hinum enda markaðarins enda í raun húsnæðisekla í London.

Töluvert er um það að verktakar hafi dregið úr áformum sínum varðandi mjög dýrar íbúðir og nú munu helst vera byggðar íbúðir á bilinu 200.000 til 500.000 pund.

Undanfarið ár hefur alþjóðlega tímaritið Economist lýst þeirri skoðun sinni að fasteignaverð sé orðið allt of hátt víðast hvar í hinum vestræna heimi. Economist hefur fylgst vel með fasteignamörkuðum og þróað eigin fasteignaverðvísitölur sem ná til fjölmargra landa og stærstu borga innan þeirra. Útreikningar tímaritsins benda til þess að á mælikvarða launa og húsaleigu sé fasteignaverð í sögulegu hámarki t.d. í Bandaríkjunum, Bretlandi, Ástralíu og á Spáni. Líklegt sé að fasteignamarkaðir stefni víðast hvar í verulega verðlækkun eins og bent var á í Vegvísi greiningardeildar Landsbankans í gær.

Þrátt fyrir þessa svartsýni Economist hefur fasteignaverð haldið áfram að hækka og tímaritið því verið gagnrýnt fyrir dómsdagsspár sínar. Economist heldur þó sínu striki og bendir á að eitt helsta einkenni eignaverðbóla sé einmitt að verð hækki mun meira og lengur en nokkur sá fyrir. Þetta var t.d. einkenni verðbólunnar sem sprakk á alþjóðlegum hlutabréfamörkuðum árið 2000.

10-30% verðlækkun framundan?

Samkvæmt samantekt Economist hefur fasteignaverð undanfarin ár hækkað umfram verðbólgu í öllum löndum nema Þýskalandi og Japan. Í 16 löndum er hlutfall fasteignaverðs og launa 25%-60% yfir 30 ára meðaltali. Aðlögun að sögulegu meðaltali getur gerst eftir tveimur leiðum, annað hvort með lækkun fasteignaverðs eða með hækkun launa og húsaleigu. Lækkun fasteignaverðs sé hins vegar líklegasta niðurstaðan því að í flestum löndum hækki laun aðeins um 3-4% á ári og því tæki ár og jafnvel áratugi að ná jafnvægi á fasteignamarkaði í gegnum launahækkanir eins og bent var á í Vegvísinum.

Heimildir: The Economist, The Daily Telegraph og Vegvísir Landsbankans