Skíða- og golfklúbburinn Yellowstone Club í Montana í Bandaríkjunum hefur farið fram á greiðslustöðvun en gjaldþrot vofir yfir klúbbnum.

Að sögn Reuters fréttastofunnar er gjaldþrot Yellowstone Club að mörgu leyti táknrænt fyrir þær efnahagsþrengingar sem nú ríða yfir Bandaríkin.

Yellowstone Club er að sögn Reuters lúxusklúbbur fyrir hina „ofur-ríku,“ eins og það er orðað í frétt Reuters.

Viðmælandi Reuters segir að þetta sé lifandi dæmi þess að kreppan komi ekki bara niður á þeim efnaminni í samfélaginu.

Eigendur klúbbsins, Yellowstone Mountain Club LLC eiga mikið land umhverfis svæðið sem þeir hafa notað til að ýmist selja eða leigja lúxusfasteignir. Þannig kostar hús á svæðinu á bilinu 2 – 6 milljónir Bandaríkjadala (um 280 – 850 milljónir ísl.kr. á núverandi gengi).

Eins og gefur að skilja hefur lítið selst af fasteignum á svæðinu undanfarin misseri.

Í beiðni félagsins um greiðslustöðvun kom í ljós að skuldir þess nema á bilinu 100 – 500 milljónum dala.

Það var Edra Blixseth, stjórnarformaður félagsins sem fór fram á greiðslustöðvunina en hún stofnaði klúbbinn árið 2000 ásamt fyrrverandi eiginmanni sínum, Tim Blixseth.

Þá kemur fram í frétt Reuters að klúbburinn verður opinn þangað til annað kemur í ljós.