Ein glæsilegasta snekkja heims er komin aftur til Íslands, en um er að ræða risasnekkjuna Octopus. Þessi 126 metra langa snekkja er í eigu Paul Allen, eins af stofnendum Microsoft, en hún hefur oft komið til landsins frá árinu 2010.

Snekkjan liggur austanmegin við Hörpu, ekki fjarri Reykjavíkurhöfn, en hún hefur verið í eigu Allen frá árinu 2003. Á snekkjunni má finna tvo þyrlupalla, sjö léttbáta, sundlaug, sæþotur og fleira.

Íslandsvinurinn Paul Allen er mikill áhugamaður um gömul skipsflök og árið 2010 kom hann hingað fyrst og kafaði að bandaríska herskipinu Alexander Hamilton, sem er á botni Faxaflóa. Þá lánaði hann einnig vísindamönnum einn af kafbátum sínum til köfunar við Surtsey.

Paul Allen er 51. ríkasti maður heims og er metinn á 17,5 milljarða Bandaríkjadollara.