Fyrir þá sem hafa gaman af sjóferðum og hinu ljúfa lífi er vel mögulegt að leigja snekkju á þokkalega viðráðanlegu verði. Vikuleiga kosytar frá 2 milljónum króna upp í nánast hið óendanlega.

Þótt það sé ekki algengt eru dæmi um það Íslendingar hafi leigt sér snekkju í sumarfríinu – sumir áttu meira að segja snekkjur hérna á árunum fyrir 2008. Það kom blaðamanni nokkuð á óvart hversu úrvalið af snekkjum til leigu víðs vegar um heiminn er mikið. Ódýrustu snekkjurnar eru á um 2 milljónir króna fyrir vikuleigu en síðan er líka hægt að fá leigðar snekkjur fyrir tugi, jafnvel hundruð milljóna króna. Sem dæmi kostar ríflega 300 milljónir að leigja snekkjuna Eclipse, sem er í eigu Roman Abramovich, á viku. Fyrir flesta er þetta líklega of dýrt ferðalag en þó verða menn að taka inn í reikninginn að kostnaður við hótelgistingu sparast og einnig eru máltíðir stundum innifaldar í verðinu, þannig að í þeim tilfellum sparast matarkostnaðurinn. Fólk þarf hins vegar að koma sér á staðinn þannig að kostnaður við flug getur verið nokkur, líklega 100 til 150 þúsund á mann.

Minnstu snekkjurnar eru oft með gistirými fyrir 6 til 8 manns. Tökum sem dæmi litlu snekkjuna Yianola, sem staðsett er á Flórída. Hún rúmar 8 manns í þremur klefum og kostar vikuleiga, með skipstjóra, um 2,2 milljónir króna. Það eru 275 þúsund krónur á manninn. Það kostar í kringum 100 þúsund krónur að fljúga til Orlando næsta vor þannig að heildarkostnaðurinn við flug og leigu á þessari litlu snekkju er tæplega 400 þúsund krónur á mann. Til samanburðar er algengt að sigling með stóru skemmtiferðaskipi kosti um 500 þúsund krónur (flug innifalið). Kostnaðurinn við slíka ferð getur hins vegar verið meiri kjósi fólk að vera í klefa með glugga og svölum og svo framvegis.

Áramót, tímarit Viðskiptablaðsins, kom út á mánudaginn. Í blaðinu eru auk umfjöllunarinnar um snekkjurnar, viðtal við Illuga Gunnarsson menntamálaráðherra, Ásdísi Kristjánsdóttur hagfræðing, Þorstein Baldur Friðriksson, stofnanda Plain Vanilla, og Hugleik Dagsson svo dæmi séu nefnd. Þá er umfjöllun um veiði, Kardashian-hagkerfinu gerð skil sem og launum helstu knattspyrnumanna. Að auki er margt, margt fleira....