Fasteignafélagið Reginn á í viðræðum við heimsþekkt fatnaðar- og tískuvörumerki um opnun smáverslana á Hafnartorgi í miðborg Reykjavíkur. Forstjóri Regins segir að stefnt sé að því að ganga frá leigusamningum við þekkta erlenda aðila í næstu viku. Þá séu viðræður við íslenska verslunaraðila um leigurými á svæðinu langt komnar.

Erlendu vörumerkin sem Reginn hefur áhuga á að fá hingað til lands eru meðal annars Louis Vuitton, Gucci, Burberry, Prada, Marc Jacobs, Michael Kors, Bottega Veneta og Isabel Marant. Um er að ræða hágæða vörumerki sem metin eru á milljarða Bandaríkjadala og hafa ekki áður sést á Íslandi, en Reginn á í viðræðum við þau í gegnum erlend ráðgjafafyrirtæki.

Samkvæmt skýrslu Deloitte frá árinu 2017 um þróunina á markaði fyrir lúxusvörur á heimsvísu eru lúxusvörumerki í miklum blóma. Hundrað stærstu lúxusvörumerki heims veltu 212 milljörðum dala árið 2015 og jókst salan um 4,5% milli ára. Aukin velta í geiranum skýrist af veiku gengi flestra gjaldmiðla gagnvart Bandaríkjadollarnum, aukinni eftirspurn ungs fólks eftir hágæðavörum og auknum fjölda ferðamanna á heimsvísu.

Einnig á Reginn í viðræðum við vörumerki í eigu sænsku verslanakeðjunarinnar Hennes & Mauritz (H&M), svo sem COS. Eins og kunnugt er verður H&M „akkerisverslunin“ á Hafnartorginu, með 2.700 fermetra verslun á tveimur hæðum í húsinu sem snýr að Arnarhóli.

Viðræður við íslenska verslunaraðila um leigu á Hafnartorgi og Austurbakka eru einnig á lokametrunum. Má þar nefna Föt og skó ehf. (sem rekur meðal annars Herragarðinn í Kringlunni og Smáralind og Boss-búðina í Kringlunni), NTC ehf. (sem rekur meðal annars Galleri Sautján, Evu og GK Reykjavík), Michelsen úrsmiði, fjarskiptafélagið Símann og Joe & the Juice.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð . A ðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir drauminn vera að ná samningum án átaka
  • Eigendur Priksins setja á fót safn um leikjakassamenningu
  • Launakostnaður Icelandair heldur áfram að vaxa
  • Bjarni Ármannsson sjöfaldaði fjárfestingu sína í Icelandic Iberica á átján mánuðum
  • Þrotabú Fáfnis Holding hefur stefnt fyrrverandi eiganda sínum
  • Umfjöllun um líftæknifyrirtækið Algalíf
  • Hagnaður VÍS fjórfaldast á milli ára
  • Bygging nýs Laugardalsvallar í einkaframkvæmd er úr sögunni
  • Ítarlegt viðtal við Dag B. Eggertsson, borgarstjóra og oddvita Samfylkingarinnar
  • Umfjöllun um Bjórböðin á Árskógssandi
  • Fyrirtækið Kúla gaf nýlega út þrívíddarlinsur fyrir snjallsíma
  • Viðtal við Margréti Önnu Einarsdóttur, lögmann hjá Land lögmönnum
  • Óðinn er á sínum stað og fjallar um flugfélögin og ógnirnar við þau
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs sem fjallar um glötuð tækifæri Reykjavíkurborgar