Lífeyrissjóður verzlunarmanna reyndi að ná sáttum við slitastjórnir Glitnis og Kaupþings um uppgjör á gjaldeyrisvarnasamningum sem gerðir voru við bankana fyrir hrun strax haustið 2008. Sjóðurinn vildi miða uppgjör samninga við að gengi krónunnar 175. Það gekk ekki þar sem slitastjórnir bankanna vildu miða uppgjörið við gengið á gjalddaga.

Fjárhæð samninganna sem lífeyrissjóðurinn gerði við bankana báða fyrir hrun nam 90 milljörðum króna.

Gjalddagar þeirra samninga sem um ræðir voru í desember 2008. Gengi krónunnar hrundi strax í byrjun árs. Gengisvísitalan stóð í 121 stigi í janúar 2008 en fór hæst í 250 stig í desember. Meðalgengi krónunnar lá í kringum 200 til 220 stigum. Það er í kringum 15 til 25% hærra en gengið sem Lífeyrissjóður verzlunarmanna miðar við.

Í tilkynningu frá lífeyrissjóðnum í dag kemur fram að með samningunum hafi hann verið að takmarka gjaldmiðlaáhættu sína. Erlendar eignir sjóðsins námu á þeim tíma um 100 milljörðum króna og voru þær rúmur þriðjungur af öllum eignum hans. Á sama tíma voru allar skuldbindingar hans í verðtryggðum íslenskum krónum.

Gætu þurft að greiða meira en 20 milljarða

Aðrir lífeyrissjóðir sömdu við slitastjórn gamla Landsbankans um uppgjör á gjaldeyrisvarnasamningum á viðmiðunargenginu 175. Lífeyrissjóður verzlunarmanna var ekki þar á meðal en hann hafði ekki gert gjaldeyrisvarnasamning við bankann fyrir hrun.

Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefur lagt 20 milljarða króna inn á varasjóð vegna uppgjörs við slitastjórnir beggja banka. Upphæðin miðast við gengisvísitöluna 175. Fari svo að kröfur slitastjórna Glitnis og Kaupþings verði ofan á gæti lífeyrissjóðurinn þurft að leggja fram talsvert hærri upphæð.