Stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna fól í dag lögmönnum hagsmunagæslu vegna ágreinings við slitastjórnir Glitnis og Kaupþings vegna uppgjörs gjaldmiðlavarnarsamninga. Reynt hefur verið án árangurs í þrjú ár að ná samkomulagi um lausn málsins.

Í tilkynningu frá Lífeyrissjóðnum kemur fram að fyrir fall bankanna hafi hann gert gjaldmiðlavarnarsamninga við báða bankana til að takmarka gjaldmiðlaáhættu sjóðsins og jafna sveiflur í ávöxtun erlendra eigna. Erlendar eignir sjóðsins voru rúmur þriðjungur af eignum sjóðsins á sama tíma og allar skuldbindingar hans eru verðtryggðar í íslenskum krónum.

Þá kemur fram að eftir fall bankanna hafi slitastjórnir hvors banka krafið lífeyrissjóðinn um greiðslur sem þær ætla að sjóðurinn skuldi hinum föllnu bönkum vegna uppgjörs samninganna. Lífeyrissjóðurinn telur hins vegar að það standist ekki lög enda hafi forsendur brotist við þrot bankanna.