Stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna hefur ákveðið aðild sjóðsins að leiðbeinandi "Reglum um ábyrgar fjárfestingar" (Principles for Responsible Investment) sem unnar hafa verið að frumkvæði Sameinuðu þjóðanna.

Í frétt á heimasíðu sjóðsins kemur fram að þetta eru leiðbeiningar fyrir stofnanafjárfesta um heim allan þar sem þátttakendur undirgangast að taka tillit við fjárfestingar til umhverfislegra og félagslegra þátta tengdan rekstri fyrirtækja auk þess sem lögð er áhersla á góða stjórnarhætti fyrirtækja. Reglurnar voru samdar af liðlega þrjátíu leiðandi lífeyrissjóðum og eignavörslufyrirtækjum austan hafs og vestan í samstarfi við Sameinuðu þjóðirnar. Þegar hafa margir af stærstu lífeyrissjóðum vesturlanda undirgengist reglurnar.

"Við erum ánægð með að vera orðnir þátttakendur í alþjóðlegu samstarfi sem stofnað var til á vegum SÞ um bætta stjórnarhætti fyrirtækja. Í auknum mæli gera fjárfestar sér grein fyrir að við langtímaávöxtun eigna þarf að taka tilliti til umhverfislegra og félagslegra þátta við rekstur fyrirtækja auk þess sem góð stjórnun hefur þar þýðingarmiklu hlutverki að gegna. Með þátttöku í samstarfinu er stjórn lífeyrissjóðsins að lýsa því yfir að við fjárfestingar muni sjóðurinn líta til fyrrgreindra þátta eins og við verður komið" sagði Þorgeir Eyjólfsson forstjóri LV í fréttinni.