Landssamband veiðifélaga hefur ritað Hafrannsóknarstofnun bréf þar sem lýst er eindreginni andstöðu við fyrirhugað 3.000 tonna tilraunaeldi á frjóum laxi í Ísafjarðardjúpi. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá sambandinu.

Landssambandið krefur stofnunina margvíslegra upplýsinga m.a. um hvers vegna fyrirhugaðar tilraunir verða ekki framkvæmdar hjá þeim fyrirtækjum sem nú þegar hafa umfangsmikið eldi á frjóum laxi í sjó við Ísland. Telur Landssambandið að svo takmörkuð tilraun ein og sér líkt og á að framkvæma í Djúpinu gefi falska mynd af afleiðingum tugþúsunda tonna eldis þar í hagnaðarskyni.

Telur Landssambandið að allir þeir þættir sem á að rannsaka og gera tilraunir með eigi að vera stofnuninni kunnir þar sem slíkar rannsóknir hafa verið stundaðar í Noregi um árabil og kynntar og ræddar opinberlega á Íslandi. Því vaknar sú spurning hvaða niðurstöður það eru sem stofnunin hyggst afla með tilraun sinni í Ísafjarðardjúpi sem ekki eru þekktar nú þegar.

Landssamband veiðifélaga telur að leggja beri höfuðáherslu á rannsóknir og þróun geldstofna fyrir laxeldi á Íslandi. Slíkar tilraunir verða best framkvæmdar, og ódýrastar, á þegar heimiluðum eldissvæðum og í samvinnu við þau fyrirtæki sem nú eru starfandi Notkun geldstofna sé eina trygga leiðin svo koma megi í veg fyrir að íslenskum villtum stofnum verði spillt í framtíðinni með erfðablöndun af völdum laxeldis í opnum sjókvíum.

Landssambandið varar Hafrannsóknarstofnun eindregið við því að fjármunum verði sóað í tilgangslítið verkefni, og spyr hvort rætt hafi verið við eldisfyrirtækið Háafell ehf. sem samstarfsaðila að „tilrauninni“ sem virðist aðeins til þess gerð að villa um fyrir þeim stofnunum sem taka lögum samkvæmt ákvarðanir um hvort leyfa skuli stórfellt eldi á frjóum laxi í Ísafjarðardjúpi.