Helgi Magnússon, formaður SI.
Helgi Magnússon, formaður SI.
© BIG (VB MYND/BIG)
Helgi  Magnússon segir mikilvægara að skapa sátt um lífeyrissjóðinn en deila um bílaafnot framkvæmdastjórans.

„Þetta var sameiginleg ákvörðun stjórnar og framkvæmdastjórans. Baklandi lífeyrissjóðsins hefur mislíka þetta. Við viljum ekki skapa óróa um sjóðinn og teljum hagsmuni sjóðsfélaga aðra og meiri en að halda svona máli til streitu,“ segir Helgi Magnússon, formaður stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna. Sjóðurinn greindi frá því síðdegis í dag að Toyota-bifreið sem framkvæmdastjórinn Guðmundur Þ. Þórhallsson hefur haft til afnota frá í fyrrahaust hafi verið seld og skilað til Toyota-umboðsins.

Toyota Landcruiser 150.
Toyota Landcruiser 150.
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)

DV greindi frá því í síðasta mánuði að bíllinn sem um ræðir sé Toyota Landcruiser 150. Bíll af þessari gerð kostar frá rúmum 10 til 14 milljónum króna hjá umboðinu. Stjórn sjóðsins sætti harðri gagnrýni vegna bílsins.

Helgi fjallar um bílinn í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag. Greinin eru skrifuð í tilefni af gagnrýni Helga Vilhjálmssonar, forstjóra Góu, á lífeyrissjóðurinn hafi keypt jeppabifreið fyrir framkvæmdastjórann eftir 80 milljarða tap eftir hrun.

Helgi skrifar: „Nú gerir hann að sérstöku umtalsefni að framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs verslunarmanna skuli hafa bifreið til afnota samkvæmt starfssamningi eins og algengt er hjá helstu yfirmönnum víða í fyrirtækjum og stofnunum. Það eru fleiri en ráðherrar sem hafa afnot af bifreiðum.“

Helgi segir í samtali við Viðskiptablaðið stjórnina ekki vilja að mál á borð við bílaeignina trufla starfsemi sjóðsins og því hafi verið ákveðið að selja bílinn.

Fram kemur í tilkynningu frá lífeyrissjóðnum í dag að hann eigi nú enga bifreið og muni hvorki framkvæmdastjórinn né aðrir starfsmenn fá bíl til afnota.