Ekki tókst að selja Kaupthing Lúxemborg í dag eins og væntingar höfðu verið um. Eftir því sem komist verður næst standa vonir manna nú til þess að sala klárist fyrir jól eða í næstu viku.

Eftir því sem komist verður næst er það lýbísk fjármálstofnun sem hefur ein áhuga á að kaupa bankann í heild. Eins og komið hefur fram þá er hlutafé hans til sölu á eina evru. Aðrir aðilar hafa áhuga á að kaup einstakar eignir út úr bankanum. Lýbíski bankinn heitir LAP en ekki er vitað undir hvaða formerkjum hann gerir tilboðið en undir honum eru margar stofnanir. LAP hefur fjárfest talsvert í Lúxemborg og átti til dæmis hlut í Fortis bankanum.

Þegar mest var unnu 280 manns hjá Kaupthing Lúxemborg. Í dag eru í Lúxemborg um 175 manns, í útibúinu í Sviss eru 15 starfsmenn og í Belgíu eru 45 manns starfandi í dag.