Sérstakur saksóknari hefur ákært Lýð Guðmundsson, fyrrverandi stjórnarformann Exista, fyrir stórfellt brot gegn hlutafélagalögum. Lögmaður og fyrrverandi stjórnarmaður í Kaupþingi er sömuleiðis ákærður og þess krafist að hann verði sviptur lögmannsréttindum.

Frá þessu var greint í útvarpsfréttum Ríkisútvarpsins í kvöld.

Lýði Guðmundssyni, sem þá var stjórnarformaður Exista, er gefið að sök stórfellt brot á hlutafélagalögum með því að greiða Exista einn milljarð króna fyrir nýtt fimmtíu milljarða króna hlutafé í félaginu í desember árið 2008. Milljarðurinn kom í raun frá Lýsingu hf., sem var félag í eigu Exista, í formi láns en samkvæmt ákæru rann upphæðin aldrei inn í rekstur Exista.

Þá kom fram í frétt RÚV að Bjarnfreður H. Ólafsson, héraðsdómslögmaður og fyrrverandi stjórnarmaður hjá Kaupþingi, sendi sama dag og gengið var frá kaupunum að undirlagi Lýðs, villandi tilkynningu til ríkisskattstjóra og Verðbréfaskráningar Íslands, að hlutafé Exista hefði verið aukið um fimmtíu milljarða króna sem greitt hafi verið fyrir að fullu.

Brot tvímenninganna varða sektum eða allt að tveggja ára fangelsi en sérstakur saksóknari krefst þess að Bjarnfreður verði að auki sviptur lögmannsréttindum. Í ákæru sérstaks saksóknara segir að með fléttunni hafi hlutur annarra hluthafa í Exista verið þynntur út og þannig hafi Lýður tryggt sér og bróður sínum áframhaldandi yfirráð yfir Exista.