Þeir fjórir sem handteknir voru í dag í tengslum við rannsókn embættis sérstaks saksóknara á málefnum VÍS, og lánveitingum félagsins á árunum 2007 til 2009, eru samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins Lýður Guðmundsson og Erlendur Hjaltason, fyrrum stjórnarmenn VÍS, Bjarni Brynjólfsson, framkvæmdastjóri eigin viðskipta Exista, og Guðmundur Örn Gunnarsson, sem nýlega hætti sem forstjóri VÍS að kröfu FME. Yfirheyrslum yfir Guðmundi er lokið, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Þess er vænst að yfirheyrslur standi fram á kvöld, að því er greint var frá í tilkynningu frá embætti sérstaks saksóknara.

Erlendur var forstjóri Exista ásamt Sigurði Valtýssyni, sem var og er eigandi VÍS, og sat í stjórn félagsins fyrir hönd þess. Lýður Guðmundsson sat einnig í stjórn VÍS og var meðal stórra eigenda Existu.

Leiðrétting kl. 20.25:

Ranglega var frá því greint í frétt á vef Viðskiptablaðsins fyrr í dag, að Sigurður Valtýsson, fyrrverandi forstjóri Exista, hefði verið yfirheyrður í dag í tengslum við rannsókn málsins. Svo er ekki.